Baby faced assassin

Góðar stelpur fara til himmna, vondar stelpur fara hvert sem þær vilja

|

sunnudagur, janúar 29, 2006

Í mat hjá mafíunni

Ég fór í mat til fjölskyldunnar í kvöld, hef ekki komist í svona mánuð. Ég fékk svínahnakka í bjórsósu sem var mjög gott svo horfðum við mamma á síðasta þáttinn af allir litir hafsins eru kaldir. Ég verð að segja að þessir þættir eru alveg ágætir.
Pabbi sýndi mér nýja ferðabílinn sem hann og mamma keyptu sér og svo fór ég heim og hitti Atla frænda á leiðinni í strætó. Það er alltaf gaman að hitta fólk í strætó þá er ferðin miklu styttri.
|

fimmtudagur, janúar 26, 2006

Beauty and the geek

Ég er að horfa á skemmtilegasta raunveruleikaþátt sem ég hef nookurn tímann séð. Hann heitir Beauty and the geek. Þar koma saman sjö fegurðardísir (bandarískar fegurðardísir eru ekki nálægt eins fallegar og ég hélt. Ég ætla að vera með pínu þjóðarrembing og segja að okkar konur eru miklu flottari) og 7 nördar og para sig saman. Þetta er ekki stefnumótaleikur heldur eiga pörin að læra hvort af öðru og taka þátt í keppnum. Strákarnir þurfa t.d. að læra hvernig á að bjóða dömum á stefnumót, allt um tísku og stelpurnar þurfa að læra hugareikning, hvernig á að búa til eldflaugar.
Ég mæli með þessum þáttum.
|

miðvikudagur, janúar 25, 2006

Breytingar

Ákvað að breyta um útlit og laga aðeins til í linkunum mínum.

Ég er komin með þvílíkt ógeð af vinnunni minni, ég verð að fara að finna eitthvað annað.
|

laugardagur, janúar 21, 2006

Úps

Ég gleymdi að minnast á búninginn hennar Regínu. Mér fannst hún eiginlega skást. Hvað er með þessa latex dómínu hanska sem hún er með. Kannski ekki alveg rétti vettvangurinn til að vera í svoleiðis.
|

Það blæðir úr eyrunum á mér

Ég horfði á undankeppni Eurovision. Þvílík hörmung. Mjög fáir keppenda gátu yfirleitt sungið og lögin voru svo hræðileg með einhverri 80´s slikju yfir sér.
Og hverjir völdu eiginlega þessi lög?


Spurningakeppnin þar á undan var samt mjög skemmtileg.
|

föstudagur, janúar 13, 2006

Leið 2. Ferðin til heimsenda

Ég tók strætó nr. 2 á leiðinni heim sem voru mikil mistök. Ferðin tók um klukkutíma og á leiðinni þurfti ég að bíða í korter meðan bílstjórinn fékk sér kaffi á stað sem kallaður er heimsendi. Á tímabili hélt ég að ég væri stödd í einhverjum samhliða heimi.
Ég þoli ekki þetta nýja strætókerfi. Ég kom heim með frosna fætur og frekar pirruð. Fokkings strætó.
|

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Vaxin eins og strákur

Samstarfskona mín sagði mér í dag að ég væri vaxin eins og strákur.
Ég held ég fari og setji á mig varalit.
|

mánudagur, janúar 02, 2006

Jóla og áramótablogg

Ég átti alveg ágæt jól og áramót þó að þau væru frekar stutt.
Ég var heima hjá foreldrum mínum á aðfangakvöld og við fengum voða fínan mat humar, hreindýralund og ananasfrómas. Ég er mjög fegin að við erum hætt að vera með reykt eða saltað svínakjöt, maður er alltaf svo þyrstur á eftir.
Við tókum upp gjafirnar okkar, ég fékk sæng, kodda og bókina bátur með segli og allt frá mömmu og pabba, stórann og þægilegann baðslopp frá Hallgrími bróður mínum, Ég fékk tvær matreiðslubækur frá Magnúsi og fjölskyldu, ilmvatn og eyrnalokka frá ömmu og afa, Live dvd með queens of the stone age frá Nils og bók um skó frá Óla og Eygló.
Svo lásum við jólakortin okkar.

Á jóladag er ég vön að fara í jólaboð til ömmu og afa en þau voru bæði veik svo að jólaboðið var haldið hjá Gunnu frænku í staðinn. Það var voða gaman við spiluðum, spjölluðum og borðuðum góðann mat.

Á annan í jólum fór ég svo í jólaboð til Olgu frænku, það er orðið kannski of mikið af fólki þar fyrir minn smekk.
Fór svo bara aftur að vinna.

Á gamlárskvöld fór ég aftur til mömmu og pabba. Við fengum rækjufrauð (sem tók mig ótrúlega langann tíma að borða, andabringur með rösti kartöflum og salati og í eftirrétt fengum við jarðaber í balsamlegi með mascarpone osti og jarðaberja sorbet. Eins og alltaf horfðum við á innlendann og erlendann frétta annál.
Svo horfðum við á skaupið sem var mjög slappt þetta árið enda bjóst ég við því þegar ég sá að Edda Björgvins er leikstjóri. Og afhverju þarf Laddi alltaf að vera í öllum þáttum, maðurinn hefur aldrei verið fyndinn. Það þarf virkilega að fara endurnýja þessa leikara, leyfa einhverjum nýjum að komast að.
Svo fórum við út til að horfa á brjálæðið og ein rakettan var næstum því lent í mér, ég tók ekki eftir neinu en bróðir minn kom og dró mig í burtu.

Eftir það fór ég heim og hélt partý sem ein vinkona mín kom í, ég var frekar vonsvikin að engir aðrir komu frá mér. Vinir strákanna komu líka svo hringdi Hrabba í fólk svo þetta endaði með að vera bara ágætis partý. Tvær konur komu í partýið með krukku sem þær sögðu innihalda piss og voru að reyna fá fólk til að drekka það, þær reyndu sérstaklega mikið að fá Binni vin Hröbbu til að drekka pissið en hann lét ekki undan svo fékk hann knús í lok kvöldsins fyrir að láta ekki undan, ég slapp við allt bögg því ég baka góðar smákökur. Pissið reyndist svo vera heimabruggað hvítvín.
Ég fór að sofa svona um níuleytið, Hrabba fékk að gista því að hún var frekar búin á því um fimm.

Annars er þetta búið að vera fínt, búin að borða helling af kökum og konfekti og drekka jólaöl, lesa bátur með segli og allt, hún er góð.